21. mars. 2016

Við höfum fengið nokkuð af heysýnum frá hestamönnum. Það nýjasta hjá okkur er að senda hestamönnum auk niðurstöðna úr NIR greiningum prótein, meltanleiki, tréni og orkuútreikningur, útreikninga á fóðurþörf af eigin heyi. Þannig að á niðurstöðublöðunum er reiknað út hvað þarf að gefa mikið á dag af heyinu, miðað við viðhaldsfóður, létta brúkun og síðan mikla brúkun, en þetta miðast við meðalþungan hest.

 

Heysýnatörnin byrjaði 1. september og gekk vel að okkar mati þó auðvitað megi allttaf gera betur. Við náðum í nánast ölllum tilfellum senda út niðurstöður á réttum tíma sem voru 10 virkir dagar.  Miðað við að við vorum nærri þvi alla heysýnatörnina í þróunarvinnu með NIR, sjáum við fram á að auðvelt verður að ná tímamörkum með útsendingu niðurstaðna næsta haust. Við erum þakklát bændum fyrir að trúa á okkur og fór sýnafjöldi fram úr okkar björtustu vonum. Það var sérlega ánægjulegt að margir bændur sem ekki höfðu sent inn heysýni áður eða um langan tíma sendu inn sýni. Sýnin urðu 1034 og við fögnuðum Þorvaldi á Skeljabrekku þegar hann kom með sýni nr 1000 og hann fékk auðvitað fríar niðurstöður.

Jarðvegssýnin tóku að berast í september en við byrjuðum ekki fyrren í lok nóvember að vinna þau. Þótt við byrjuðum í seinna fallinu voru niðurstöður allar komnar til ráðunauta fyrir 15. desember. Mælingarnar gengu vel og við vorum með þá nýjung að mæla snefilefni í jarðvegi (mangan, zink og kopar). Einnig mældum við rúmþyngd en það var ekki heldur gert hjá fyrirrennurum okkar.

 

This entry was posted in Fréttir. Bookmark the permalink.

Comments are closed.