Nú þegar Efnagreining ehf er að hefja sína aðra heysýnatörn er við hæfi að horfa um öxl og reyna að meta síðasta starfsár. Ekki er hægt annað en að gleðjast yfir hve vel bændur tóku þjónustu okkar frá fyrstu stund. Okkur bárust 1118 heysýni alls, sem var umfram björtustu vonir. Fjármögnun fyrirtækisins tók mun lengri tíma en búist var við og þetta setti undirbúningsfasann í nokkurt uppnám og minnkaði það svigrúm sem þurfti til þróunar og endurbóta mæliaðferða.
Við hófum törnina í fyrra með allt nýtt þ.e. húsnæði, tæki, búnað og mannskap að nokkru leyti. Þetta krefst samstillingar ótal þátta og það mátti því kannski teljast bjartsýni að ætla að mæla meltanleika, prótein og tréni með NIR tækni með þann stutta þróunartíma sem við höfðum til umráða frá því aðstaðan var tilbúin og þar til við þurftum að mæla fyrstu sýni. Fyrir NIR-greiningarnar þurftum við að byggja upp kvarðanir frá grunni með nýtt mælitæki og nýjan hugbúnað, hvort tveggja nokkuð frábrugðið því sem notað var við Landbúnaðarháskólann. Fáir á Íslandi hafa kunnáttu til að höndla fyrrnefnda tækni en við vorum svo heppin að njóta ráðgjafar Tryggva Eiríksson helsta sérfræðing landsins. Þróun NIR-mælinganna kostaði mikla vinnu sérstaklega í upphafi en einnig í törnum langt fram á þetta ár. Það verður því að viðurkenna að mæliniðurstöður okkar í lok tímabilsins voru heldur áreiðanlegri en þær fyrstu.
Auk NIR-greininganna þurfti að koma upp fjölda aðferða til svonefndra votmælinga (upplausn sýna og hefðbundnar greiningar). Við ákváðum að framkvæma mælingar bæði steinefna og snefilfrumefna með massagreini en það er nokkuð nýnæmi. Ögrunin felst í því að mæla með sama tækinu og í sömu mælitörn annars vegar steinefni, sem mælast í prósentum, og hins vegar snefilefni á borð við selen, mólýbden og kóbolt þar sem innihaldið er langt undir miljónasta hluta (ppm) þ.e. meira en hundrað þúsund sinnum lægra. Við erum með fullkomið mælitæki og þetta gekk bara vel. Á miðju tímabilinu gátum við bætt ómeltanlegu tréni (iNDF) við NIR-mælingarnar og klóríði við votmælingarnar, hvort tveggja þættir sem nauðsynlegir eru fyrir NorFor kerfið. Við erum enn ekki komin með aðferðir til að greina gerjunarþætti (aðra en ammóníum) en stefnum á að geta mælt lífrænu sýrurnar sem fyrst.
Í sumar munum við hefja móttöku heysýna í júlí. Til að sýni komist með í fyrstu mælitörn þurfa þau að berast eigi síðar en 15. júlí. Niðurstöður munu berast fyrir mánaðarmótin. Við munum síðan taka næsta skammt sýna til vinnslu 18. ágúst og þeir sem senda sýni fyrir þann dag mega búast við niðurstöðum fyrir mánaðarmótin. Verð greiningarpakkanna verður það sama og í fyrra, fyrir utan vísitöluleiðréttingu.
Við þökkum bændum fyrir gott samstarf á liðnu ári og vonumst eftir jafnvel enn betra samstarfi í komandi heytörn.