Um okkur

Stofnendur Efnagreiningar ehf eru Elísabet Axelsdóttir, eigandi og framkvæmdastjóri og Arngrímur Thorlacius dósent í efnafræði við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Elísabet er búfræðingur frá Hvanneyri og hefur stundað nám í Viðskipta- og tölvuskólanum. Hún var bústjóri í 10 ár með mannahald og bókhald. Síðustu 13 ár hefur hún starfað við efnagreiningar.

Arngrímur er efnagreiningarsérfræðingur, menntaður í Reykjavík, Kaupmannahöfn og Björgvin, með mælingar snefilfrumefna sem sérsvið. Hann hefur unnið við efnagreiningar nærri alla sína starfsævi bæði innanlands og utan.

 

 

Áramótin 2014/2015 hætti Landbúnaðarháskóli Íslands með þjónustuefnagreiningar sínar. Stofnendur Efnagreiningar ehf ákváðu strax að freista þess að opna nýja stofu. Þar sem rannsóknastofa Landbúnaðarháskólans hafði á vissan hátt dregist aftur úr varðandi tækjavæðingu og fyrirkomulag var ákveðið að gera betur.

Fljótlega var lagt í fengsæla ferð til Shanghai til að útvega innréttingar og almennan rannsóknarstofubúnað og talsverðan hluta mælitækjanna. Við hlutum höfðinglegar móttökur hjá Kínverjum. Þar fyrir utan höfum við keypt tæki og tól frá Austurríki, Frakklandi, Sviss og Bandaríkjunum og á „síðustu metrunum“ kemur mikilvægt tæki frá Indlandi.

Frá Bandaríkjunum kom fullkominn rafgas-massagreini (ICP-MS) sem gerir kleift að mæla steinefni og snefilfrumefni í sömu keyrslu. Með þessum búnaði fæst fullkomin aðstaða til að greina frumefni í mjög lágum styrkjum  og það gerir okkur meðal annars fært að greina selen sem er sérlega mikilvægt greiningarefni fyrir íslenskan landbúnað.

Margir bændur hafa sent sýni til útlanda síðustu misseri til að fá framangreindar niðurstöður. Efnagreining ehf mun bjóða uppá á hraðvirka þjónustu og skila niðurstöðum fyrir heysýni innan 10 virkra daga frá því sýni berst.

Það er mikið átak að setja upp fullkomna efnagreiningastofu á Íslandi. Til þess þarf ótal mælitæki og annan búnað fyrir utan auðvitað fjármögnun. Lán frá Byggðastofnun og Landsbankanum standa undir drjúgum hluta, en auk þess höfum við fengið rausnalega styrki frá Vaxtasamningi Vesturlands, Hugheimum-frumkvöðlasetri í Borgarnesi, Atvinnumálum kvenna og Framleiðnisjóð Landbúnaðarins.

 

 

Við stöndum í (þakkar)skuld við alla þessa aðila. Ekki er síður þakkarverð öll sú ómetanlega aðstoð vina við að rýma húsnæði, þilja og innrétta, taka við efnivið og tækjum og hjálpa við smíðar og samsetningar. Vaskt lið hefur unnið baki brotnu á vor- og sumarmánuðum til að gera okkur kleift að hefja starfsemi á svo stuttum tíma sem auðið var og svo hægt væri að taka við sýnum til úrvinnslu á haustmánuðum.

Comments are closed.